154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:53]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Leikskólamálin eru vissulega áskorun, þau eru það í flestum sveitarfélögum hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það geti allir á barneignaraldri, sem eru með börn, vitnað um. Ég ætla samt að fá að halda því til haga að fyrirrennari Samfylkingarinnar var sá sem kom á því fyrirkomulagi sem núna er til staðar varðandi dagvistun barna þar sem áður var ekki auðvelt að koma börnum að.

Staðreynd málsins er þessi að það sem hefur reynst erfitt í mönnun er launaliðurinn. Það er vegna þess að það var ekki vilji og hefur verið erfitt að hækka lægstu laun, til að mynda leikskólakennara. Tökum sem dæmi baráttuna sem átti sér stað hjá Eflingu í Reykjavíkurborg sem var nú heldur betur mótmælt hér víða og þegar Reykjavíkurborg féllst á þær kröfur sem m.a. hækkuðu launalið þeirra, sem er 60% af gjöldum sveitarfélaga, þá var talað um lélegan rekstur Reykjavíkurborgar.

Að halda því fram að mönnunarvandinn í leikskólunum úti um allt land, og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, tengist ekki launamálum, sem í grundvallaratriðum er pólitískt málefni, hvernig við sköpum sess og svigrúm hjá sveitarfélögum til að fjármagna þann lið, (Forseti hringir.) er fáránleg framsetning. Við vitum að þetta er vandi alls staðar.